8.12.05

Og hef ég upp raust mína....

Nú er bara kominn desember og jólaundirbúningurinn í fullum gangi. Ég finn skýr merki þess í vinnunni þessa dagana hvernig þetta leggst í börnin. Þau eru svo miklu æstari á þessum árstíma en öðrum. Svo sem ekki skrýtið þar sem allt þjóðfélagið er hálfsturlað á þessum árstíma allir annaðhvort að kaupa, kaupa, kaupa eða með hnút í maganum yfir að hafa ekki ráð á að kaupa nóg.
Annars gengur lífið hjá okkur sinn vanagang, Heklan tók reyndar góðan veikindasprett um daginn og lagðist 3svar í röð og var orðin ansi hreint skapstygg og óhress eftir það allt saman. En við erum búin að dæla í hana fjölvítamíni og ávöxtum svo að hún er farin að líkjast sjálfri sér á ný. Núna er nýja Harry Potter bókin komin út og þá er ekki seinna vænna að klára þessa seinustu. Pabbi hennar byrjaði að lesa hana fyrir hana en missti móðinn og þá tók afi hennar við. En þetta gengur ekki nægilega hratt þannig að nú fara allar hennar frístundir í lestur, hún tekur bókina með sér hvert sem hún fer og ef hún er hjá afa sínum og ömmu þá tekur afinn góða spretti í að lesa fyrir hana og við pabbi hennar tökum einn og einn sprett heima. En þess á milli situr hún sveitt við lestur sjálf. Ég er nú þónokkuð stolt af henni að hafa úthald í að lesa þetta ekki eldri en hún er. Um daginn þá uppgötvaði hún alveg nýjar víddir í þessu og sagði mér uppveðruð af því að þegar hún væri að lesa væri eins og hún hyrfi bara inn í söguna. Þetta opnaði algerlega nýjar víddir þó að hún hafi lengi lesið sér til skemmtunar á kvöldin. Ég er allavega mjög ánægð með litla lestrarhestinn minn og ég held að þetta hljóti að koma henni til góða síðar meir.
Við Hekla erum að hita okkur upp í að skreyta heima og erum búnar að koma upp lýsingum í gluggana og ætlum svo að fara að týna upp meira skraut á næstu dögum. Við reyndar sætum lagi þegar Bjarni er ekki heima þar sem hann er antiJóli og er ekki eins hrifinn af því að skreyta og við og vill sem minnst af þessu vita. En við mæðgur blásum á það og höldum algerlega okkar striki þótt hann tuði.
Úff hvað mig hlakkar nú til að komast í jólafrí, þetta hefur verið mikil vinnutörn þessi haustönn og ég hef sjaldan haft eins mikið að gera. Ef að allt gengur upp hjá mér þá verð ég að vinna fram að jólum og verð svo í fríi milli jóla og nýárs. Þannig að ég hlakka mikið til þess.
Jæja þetta nægir í bili er það ekki.....