31.1.07

Ég er leið...

Ég fer oft á svona bloggrúnt á netinu mér til skemmtunar og rekst oft á bæði skemmtileg og áhugaverð skrif. Ég rakst á umfjöllun um svokölluð Súperman partý og verð að segja að mér blöskrar. Þarna var efnt til keppni milli ungra stúlkna þar sem þær áttu að heilla “Súperman”. Í auglýsingu fyrir keppnina segir að þær megi beita til þess öllum þeim brögðum sem þeim lystir og orðrétt er sagt að þær megi “Dansa, hoppa, fækka fötum eða bara hvað sem hugurinn gyrnist henni.”

Í umræddu partýi sem haldið var á skemmtistaðnum Pravda þá skelltu þessar stúlkur sér upp á svið og skóku sig og hristu framan í umræddan “Súperman” og gengu svo langt að fækka fötum og samkvæmt þeim myndum sem ég skoðaði úr þessu partýi og eru á heimasíðunni www.superman.is þá var þetta partý allt hið subbulegasta. Reyndar er búið að taka grófustu myndirnar þaðan út núna eftir umfjöllun á hinum ýmsu miðlum en eftir stendur að þetta partý var haldið og þessi hegðun liðin þar og samþykkt af fjöldanum. Ég er búin að lesa umræður um þetta mál hér, hér og hér m.a. og verð að segja að ég er hálfringluð og mér líður pínulítið illa að vera stelpumamma í samfélagi þar sem svona hegðun er samþykkt.

Það sem stendur eftir í höfðinu á mér er allsherjar ringulreið, ég veit ekki við hvern ég á að vera reið, á ég að vera reið fyrir stelpurnar fyrir að hegða sér á þennan hátt, á ég að vera reið við “Súperman” fyrir að standa fyrir þessu eða á ég að vera reið útí Pravda fyrir að hýsa svona lágkúru?

Ég held að ég geti ekki verið reið útí stúlkurnar sem tóku þátt í þessu því að eðlileg kona með eðlilega sjálfsmynd hefði ekki tekið þátt í svona uppákomu. Það hlýtur einhver brenglun að hrjá konur sem taka þátt í svona löguðu, eitthvað sem gerir það að verkum að þær kjósa að fá aðdáun og eftirtekt á þennan hátt, eitthvað sem ekki er í lagi. Allavega mundum við vinkonurnar ekki láta hafa okkur útí svona lagað einfaldlega vegna þess að við berum of mikla virðingu fyrir sjálfum okkur.

Ok. Á ég þá að vera reið útí “Súperman”? Það var jú hann sem skipulagði þessa keppni og tók þátt í henni með því að láta stúlkurnar keppa um að heilla sig á þennan hátt. Eða er hann kannski fórnarlamb líka? Fórnarlamb samfélags sem er orðið svo fyrrt að það þykir eðlilegur þáttur í næturlífinu að stúlkur berhátti sig fyrir utanlandsferðir eins og í þessu tilefni. Mér finnst samt að þessi maður beri sök, mér finnst hann vera að notfæra sér veikleika (sjúkleika?) stúlknanna og á myndunum var hann með þær berar í fanginu og þuklandi á þeim. Mér finnst þetta ekki í lagi og kýs að trúa því að venjulegir karlmenn geri ekki svona, allavega vona ég að þið karlmennirnir í mínu lífi samþykkið ekki svona fyrringu.

Á ég að vera reið útí Pravda eða vörumerkin sem sponseruðu þessa uppákomu? Kannski því að þessir aðilar stuðla að því að þetta viðgengst og sumir þeir sem flytja inn ákveðna áfenga drykki stuðla að því að skapa svona menningu með auglýsingum eins og t.d. þessari hér.

Ég held samt að allt þetta sé hluti af miklu stærri heild, samfélaginu okkar, sem er að samþykkja klám í meira mæli en áður hefur verið. Í dag þykir mörgum ungum konum upphefð að því að láta taka myndir af sér í kynferðislegum stellingum á djamminu. Á djammsíðum eins og þessari og þessari má sjá aragrúa mynda af stúlkum að bera sig á einhvern hátt. Á bloggsíðum unglingsstúlkna má sjá myndir af þeim í sömu stellingum, í auglýsingum virðist sumum auglýsendum það virka best að hafa kvenfólk nakið. Klámvæðing samfélagsins er ótrúleg.

Augu mín hafa allavega opnast eftir að hafa lesið þessa umfjöllun sem ég linka á hér að ofan og þakka ég þessum konum kærlega fyrir það. Ég er nefnilega stelpumamma og vil ekki að dóttir mín alist upp við það að kynlíf sé gjaldmiðillinn sem gildir til að ná árangri í lífinu. Ég vil ekki að hún alist upp við það að það sé eðlilegur hluti af menningu okkar að konur séu niðurlægðar á þann hátt sem nú virðist viðgangast.

Ég vil að hún öðlist virðingu fyrir sér og sínum líkama og læri það að hún er virt fyrir skoðanir sínar, hæfileika og að henni séu allir vegir færir til jafns við karlmenn án þess að hún þurfi að selja líkama sinn eða sjálfsvirðingu til þess að ná árangri.

Ég veit ekki hvort að eitthvað samhengi er í þessum pistli mínum en hann er allavega það sem ég er að hugsa um núna og hugsanir mínar um þessi mál eru allar í óreiðu, mig langar svo að geta bent á einhvern og sagt “þú ert vondi kallinn og ég er reið við þig” en ég get það ekki því að ég veit ekki hver “vondi kallinn er”, ég veit bara að ég er reið.

Mætt

Jæja það er slétt ár síðan ég bloggaði seinast á þessa síðu og því fannst mér við hæfi að hefja upp raust mína á ný. Ég hef nefnilega fundið fyrir þörf undanfarið til að tjá mig um ýmislegt en ég ætla að taka mér smá tíma í að safna hugsunum mínum saman áður en ég læt vaða. Það væri gaman að sjá hvort einhverjir séu enn að fylgjast með þessarri síðu, en ég læt vaða á fyrsta pistilinn minn innan mjög skamms tíma bíðið bara.