27.12.04

Jæja

Þá er jólastandið að mestu búið. Við litla fjölskyldan í Vesturberginu eyddum aðfangadagskvöldi hér heima og það var bara alveg rosalega kósý að sitja 3 saman við kertaljós og borða góðan mat. Svo kom stóra prinsessan í fjölskyldunni til okkar þegar hún var búin að borða og taka upp pakkana heima hjá sér. Mamma, pabbi, Ingimar, Palli og Frosti komu líka til okkar um kvöldið og fylgdust með þegar prinsessurnar opnuðu pakkana. Það var að venju mikið pakkaflóð og máttu þæpr hafa sig allar við að opna þessa glás. Síðan var sofið frameftir á jóladag áður en við fórum í árlegt jólaboð hjá föðurfjölskyldunni minni.
En mikið rosalega er maður búinn að ÉTA mikið úff púff, svo það er ekkert annað að gera en að reyna að vanda það sem maður setur ofan í sig eftir áramótin ef þetta á ekki að sjást á manni. Ég er meira fyrir að éta um jólin og á aðventunni og fara svo bara í átakið " kjólinn EFTIR jólin"frekar en " kjólinn fyrir jólin"eins og flestir gera.
Svo er bara að vona að ég og mínar húðlötu vinkonur (ég er sko jafnlöt og þær) förum að nenna að fara í göngutúra og hrista af okkur spikið og styrkja okkar fínu flottu skvísulínur.
Jæja þetta nægir í bili. Yfir og út

22.12.04

Úff og púff

Afhverju er ég ekki þessi skipulagða týpa sem fer í janúar af stað að kaupa jólagjafir og dreifi þeim jafnt yfir árið svona eins og skynsemin segir manni að gera? Hmm af einhverjum ástæðum er ég það nú ekki og þurfti því að fara í Kringluna á laugardaginn og eyddi þar 4 klukkutímum í að æða á milli búða og kaupa jólagjafir með öllum hinum vitleysingunum sem voru þar saman komnir í sömu erindagjörðum og ég. Þetta var eins og ég ímynda mér lífið í mauraþúfu, þröngt, sveitt og óbærilega þreytandi. Svo eins og ég hafi nú ekki fengið nóg þá, þá þurfti ég að fara og ljúka innkaupunum í dag og það með örþreytta dóttur mína í eftirdragi sem var við það að hníga niður í hverju horni þarna. Já úff og púff segi ég nú bara. Við mæðgur hringdum svo í mömmu og pabba og báðum þau um HJÁLP við að komast heim og var það auðsótt mál, þau brunuðu yfir og björguðu okkur úr verslanavítinu í Kringlunni. Sitjum svo hér tvær örþreyttar mæðgur í draslaralegri íbúð og bloggum.
Sá að mamma þvertekur fyrir að hafa gleymt að segja erfingjum sínum frá blogginu sínu og pabba og sakar okkur bráðung systkynin um elliglöp og vísa ég því beint heim í föðurhús aftur.
Jæja prinsessan á bauninni kallar og heimtar þjónustu svo að ég segi bara yfir og út.

21.12.04

Jæja ég er þá farin að blogga

Mér brá svo ferlega þegar ég komst að því að foreldrar mínir væru farnir að blogga að ég hreinlega fann mig knúna til að gera slíkt hið sama til að vera nú ekki síðri netverji en þau. Ég hef nú líka allt síðan ég komst upp á lagið með að tjá mig haft af því mikið gaman og haft mikið að segja svo að þetta ætti nú ekki að verða of flókið að skrifa hér einhverja snilld annað slagið. En látum þetta nægja að sinni. Sigrún kveður að sinni!