29.1.05

Opnum umræðuna!!!

Jæja þá er maður sestur við skriftir loksins eftir smá hlé sökum andleysis.
Það sem helst brennur á mér núna eru klósettferðir, ekki að það standi neitt illa í brókina hjá mér núna heldur er það nú þannig að þetta virðist afar viðkvæmt umræðuefni hjá fólki, a.m.k. sumum.
Þannig er að ég er alin upp hjá föður sem hefur það að áhugamáli að kúka. Og maðurinn iðkar þetta áhugamál af miklu kappi og hefur af því mikið gaman að ræða hvernig þetta gengur fyrir sig. Þetta áhugamál er ekki einskorðaðað við hann einan heldur á hann fjölskyldu sem iðkar þetta með honum a.m.k. einn bróður.
Týpísk setning hjá honum að málsverði loknum í fjölskylduboði gæti verið á þessa leið: "djöfull ætlar þetta að skila sér fljótt". Svo er hlaupið á salernið og hleypt af. Að þessu loknu gæti auðveldlega skapast umræða um hvernig þetta hafi gengið fyrir sig, rembingur, þykkt, áferð og síðast en ekki síst hvort gestgjafinn bjóði uppá grjótharðan sandpappír frá Papco eða dúnmjúkan margra laga pappír sem gælir við hörundið.
Ég hef rekið mig á að eins eðlilegar og mér þykja þessar samræður þá finnst það bara ekki öllum og til eru dæmi um fólk sem þykir þetta bara vera einhverskonar öfuguggaháttur og eitthvað sem maður á alls ekki að ræða.
Um daginn sagði ég við samstarfskonu mína: "mikið rosalega þarf ég að kúka, ég ætla að hlaupa snöggvast á klóið". Mér fannst þetta bara eðlilegt upplýsingaflæði náinna samstarfsmanna en af svipnum á andliti hennar mátti dæma að þetta væru algerlega ónauðsynlegar upplýsingar fyrir hana og eiginlega alls ekki viðeigandi af mér að segja þetta.
Ég bara skil ekki svona hugsunarhátt, við ræðum jú það sem við látum ofan í okkur af miklum móð og um það eru gerðar heilu sjónvarpsþáttaraðirnar en þegar að því kemur að tjá sig um hinn endann á málinu þegja allir þunnu hljóði. Hugsið ykkur gagnsemina í því ef hægðaskil fengju viðlíka umfjöllun og matreiðsla. Vandamálin sem við gætum komið í veg fyrir eru óendanleg. t.d. gæti maður óhikað kúkað á almenningssalernum án þess að lenda í því að þurfa að þurrka sér á eftir með eins laga sandpappír svo að úr blæðir einfaldlega vegna þess að umræðan væri svo opin að almenningur mundi þrýsta á að fá a.m.k. 3 laga pappír á salerni landsins. Jafnvel væri bannað að framleiða pappír sem ekki uppfyllti skilyrði um mýkt og þykkt. Einnig gætum við ráðlagt hvort öðru um gagnlegar stellingar við rembing (rétt eins og þegar um fæðingar er að ræða) hvaða stellingar eru árangursríkastar þegar erfitt er að koma drjólunum frá sér. Er betra að öskra, stynja eða bara syngja kröftuga söngva? Hvaða pappírsbrot er best þegar um linar og blautar hægðir er að ræða? Svona mætti endalaust telja og því segi ég: Opnum umræðuna um hægðir svo að allir geti notið þeirra sem best!

18.1.05

Flutningar..

Jæja þá er ég flutt hingað á Blogspotið, hélt að hér mundi ég una hag mínum betur þar sem þetta er aðeins fiktivænna umhverfi en ég var í á blog.central....
Vildi bara óska þess að flutningar í kjötheimum gengu eins greiðlega fyrir sig og hér í netheimum.. En það er önnur saga, ekki að það sé sérlega flókið að flytja en sé maður kominn upp á náð og miskunn misvandaðra leigusala getur það verið ansi flókið að finna sér stað til að flytja á. Við erum að verða ansi örvæntingarfull í íbúðarleitinni þar sem ekki virðist um auðugan garð að gresja á leigumrkaðnum núna, hrein eyðimörk bara held ég.
Prinsessan er búin að vera veik og við höfum skipst aðeins á um að vera heima og hjúkra henni við mismikinn skilning vinnuveitenda okkar....
Læt þetta duga núna..

12.1.05



Þegar ég var lítil þá samdi hann afi minn um mig fallega vísu sem mér þykir afskaplega vænt um og ég ætla að deila henni með ykkur:

Sigrún Ósk hjá afa,
þú átt að vera stillt,
Því hann vill ekki hafa,
þitt hjarta gerist spillt.
Ávinn þér ást og blíðu,
svo allir tigni þig.
Forðastu falsboðin tíðu
er fegra og gylla sig

Jóhann Sigurður Hjálmarsson við lagið Erla góða Erla.

Fallegt ekki satt?

10.1.05

Byrjun ársins hefur verið nokkuð umhleypingasöm það sem af er allavega.
Byrjum á byrjuninni: Árið byrjaði á því að við misstum íbúðina.......Jíha ég elska leigusala sem segjast ætla að leigja íbúðirnar sínar til langs tíma en þurfa svo "því miður vegna breyttra aðstæðna" að flytja í þær sjálfir. En well það er ekkert sem ég get gert í því svosem nema að bíða og vonast eftir stóra lottóvinningnum sem gerir mér kleift að kaupa mér mína eigin íbúð sem enginn getur fleygt mér útúr til að flytjast inní sjálfur. Svo jafnvel mundi ég kaupa mér aðra íbúð til þess eins að leigja út og terrorisera leigjendur mína með því að segjast vera að flytja í hana sjálf í tíma og ótíma, þetta mundi veita mér gífurlega fró og útrás......
Svo að sjálfsögðu er þetta ekki eina óhappið sem rekið hefur á fjörur mínar á þessu nýborna ári. Þvottavélin tók líka uppá því að fara í verkfall (hef hana grunaða um að vera þunna eftir áramótin). En þetta gerir það að verkum að við göngum hér um í úldnandi flíkum nú eða þá að við seilumst lengra og lengra inn í fataskápinn eftir flíkum sem við allajafna látum okkur ekki detta í hug að láta sjá okkur í og erum því orðin þekkt sem fríkaða fjölskyldan sem er í þokkabót illa lyktandi.
Aukakílóin eru enn til staðar og hafa ekkert tekið upp á því að leka utan af mér af sjálfu sér og því ætla ég að fara á einn rosa góðan megrunarkúr sem kenndur er við speking mikinn, Þráinn Bertelsson að nafni og nefnist kúrinn "fimm orða kúrinn" eftirfarandi er lýsing á honum "Borða minna, hreyfa sig meira". Ég er viss um að þarna hefur hann dottið niður á hinn eina sanna megrunarkúr.
En svo ég haldi áfram með áföllin sem dunið á fjölskyldunni eftir áramótin: Í dag var prinsessan mín að róla sér í frímínútum og vildi ekki betur til en svo að hún datt úr rólunni og á andlitið og ber fögur ásjóna hennar þess nokkur merki eins og hér sést:



En við höldum þó góða skapinu eftir bestu getu eins og hér má sjá fyrir neðan. Jens og Harpa komu til okkar í heimsókn í gærkvöldi og sannaðist þar hið fornkveðna "strákar eru og verða strákar" En hann Bjarni minn og hans æskuvinur Jens Pétur brugðu á leik með ljósaseríu og digitalmyndavél og að sjálfsögðu var Óskar Ingi Jensson látinn taka þátt í leiknum meðstrákunum það má með sanni segja að þeit hafi fundið sinn innri strákling eins og glöggt má sjá af meðfylgjandi myndum:
Jens



Bjarni


Óskar Ingi



Jæja þetta nægir að sinni. Yfir og út!

1.1.05

Jæja þá eru áramótin búin og nýtt ár hefur hafið göngu sína! Við hér litla fjölskyldan í Vesturberginu eyddum kvöldinu hjá tengdaforeldrum mínum, þar borðuðum við góðan mat og vorum borðandi langt fram eftir kvöldi. Siðan var að sjálfsögðu horft á skaupið sem mér fannst nú bara með þeim betri sem ég hef séð lengi. A.m.k. var fyrri parturinn alger snilld og ég hló mikið. Húrra fyrir því. Svo puðruðum við upp einhverju af flugeldum og skemmtum okkur konunglega við það, meira að segja prinsessan á heimilinu sem hafði þó gefið út þá yfirlýsingu að hún ætlaði bara að horfa á úti í glugga, hún kom með út og ekki var að sjá á henni að hún væri mikið hrædd
Það var víst ekki eins gaman hjá foreldrum mínum í gærkvöldi, þar sem þau lágu víst bara í rúminu með upp og niðurgangspest og fór lítið fyrir áramótagleðinni hjá þeim....En þau kannski halda bara upp á þau í dag í staðinn, nú eða bara á þrettándanum.

Yfir og út